Jerry Leiber, sem samdi textana við rokklögin Hound Dog og Jailhouse Rock, er látinn 78 ára að aldri. Elvis Presley söng þessi lög sem lögðu grunn að frægð hans. Leiber vann lengi með lagahöfundinum Mike Stoller og þeir sömdu m.a. lög fyrir The Drifters, The Coasters og Elvis Presley. Willie Mae „Big Mama” Thornton varð fyrst listamanna til að syngja Hound Dog inn á plötu árið 1953 og lagið komst þá í 1. sæti á bandaríska vinsældalistanum. Í flutningi Elvis náði lagið hins vegar enn meiri vinsældum þótt Leiber léti hafa eftir sér, að honum þætti útgáfa Thornton betri. Þeir Leiber og Stoller sömdu einnig lagið Stand By Me, sem Ben E. King gerði frægt. Alls fóru 15 laganna, sem þeir sömdu saman, í 1. sæti vinsældarlista.