Always on my mind 40 ára

Fyrir fjörutíu árum, þann 29. mars 1972, steig Elvis Presley inn í hljóðver með hljómsveit sinni og hljóðritaði lagið ,,Always on my mind.“ Þá var Presley nýlega skilinn að borði og sæng við eiginkonu sína Priscillu. Lagið kleif vinsældalistana og er talið eitt af bestu lögum rokkkóngsins sáluga.

Árið 1982 tók sveitasöngvarinn Willie Nelson lagið upp á sína arma og þá sló það gjörsamlega í gegn og útgáfa hans vann til Grammy-verðlauna. Fimm árum síðar gerðu Pet Shop Boys sína útgáfu í sjónvarpsþætti þar sem þess var minnst að tíu ár voru liðin frá andláti Presleys. Lagið í flutningi Pet Shop Boys er talsvert ólík fyrri útgáfum og var vinsælasta lagið í Bretlandi fyrir jólin 1987.

Fæstir vita að það var hins vegar dægurlagasöngkonan Brenda Lee sem söng ,,Always on my mind” fyrst inn á plötu, nokkru áður en Presley gerði sína útgáfu sama ár. Síðdegisútvarpið gerði heimatilbúna syrpu úr laginu ,,Always on my mind” auk þess sem fáheyrð útgáfa Brendu Lee fékk að njóta sín á öldum ljósvakans.

Always on my mind – lag dagsins á Rás 2.