40 ár frá því að Elvis dó

Það er hreint ótrúlegt að hugsa út í það að kóngurinn Elvis hafi dáið fyrir 40 árum síðan. Nokkrum árum eftir dauða hans var heimili hans í Memphis, Graceland, opnaði fyrir almenning og hefur verið opið sem safn og milljónir manna heimsækja það árlega og hittast í svokallaðri Elvis-viku, þar sem aðdáendur minnast hans.  Ýmislegt um hans dauðadag hefur komið fram í ævisögum fyrrum starfsfólks hans, en kærasta hans á þessum tíma var hin unga Ginger Alden. Elvis hafði nýlokið tónleikaseríu og átti fljótlega að hefja nýja, en þessa dagana fyrir dánardaginn var hann heima á Graceland. Hann var þekktur fyrir að vaka á nóttinni og sofa á daginn, og þessi dagur var þannig. Hann fannst látinn á baðherbergisgólfinu um 14:30 en þá var hringt á sjúkrabíl sem kom eftir nokkrar mínútur. Það var strax ljóst að hann var löngu látinn og fljótlega var gefið út að hann hafi fengið hjartaáfall, aðeins 42 ára. En við krufningu kom í ljós að hann hafði tekið 7-8 mismunandi læknalyf sem talið er hafa valdið þessum dauða hans. Sjúkrabíllinn tók hann á Baptist Memorial sjúkrahúsið sem var 21 mínútu frá Graceland, en Dr. Nick sem var læknir Elvis skipaði svo fyrir, því hann vissi að starfsmenn þar myndu halda trúnað. En Methodist South sjúkrahúsið var aðeins 5 mínútur frá Graceland, og hefur það vakið furðu að ekki hafi verið keyrt þangað. Um kl. 15:30 var hann úrskurðaður látinn. Nokkrum vikum síðar var greint frá því að rannsókn hafði leitt það í ljós að verkjalyf og önnur lyf eins og Dilaudid, Quaalude, Percodan, Demerol og codeine höfðu fundist í líkama kóngsins. Læknirinn Dr. Nichopoulos var yfirheyrður og játaði að hafa skrifað upp á þessi lyf fyrir Elvis, og sagði hann vera háðan verkjalyfjum sem hann hefði reynt að hafa stjórn á svo hann færi ekki í sterkari efni. Hann var ekki ákærður, en árið 1995 missti hann læknaleyfið fyrir að skrifa út of mikið af lyfjum fyrir sjúklinga sína.

18. ágúst 1977 var haldin jarðaför þar sem 17 hvítir Cadilac bílar komu keyrandi frá Graceland að kirkjugarðinum Forrest Hill Cemetery, þar sem hann var fyrst grafinn ásamt móður sinni. Síðar var gröfin færð til Graceland.

tvs01