Elvis lifnar við með heilmyndartækni

Unnið er að því að koma rokkkónginum aftur á svið með hjálp heilmyndartækni. Tekjur Presley voru um 55 milljónir dala í fyrra.

Bandaríska fyrirtækið Digital Doman vinnur að því hörðum höndum um þessar mundir að koma rokkgoðinu Elvis Presley aftur á svið með hjálp svokallaðrar heilmyndartækni (e. hologram). Áætlað er að Presley geti hrist búkinn aftur eins og honum einum var lagið áður en langt um líður án þess að eiga á hættu að fara úr mjaðmalið.

Presley hvarf yfir móðuna miklu árið 1977 og hefði orðið 77 ára í janúar síðastliðnum.

Þrátt fyrir að Presley hafi dvalið handan móðunnar miklu í 35 ár þénar hann engu að síður ágætlega. Hann er í öðru sæti á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir þá þá látnu listamenn sem hæstar höfðu tekjurnar á síðasta ári. Tekjur af sölu laga Presleys og varningi honum tengdum námu samkvæmt útreikningum blaðsins 55 milljónum dala í fyrra, jafnvirði 7,1 milljarðs íslenskra króna.

Michael Jackson er talsvert volgari í toppsætinu. Hann halaði inn 170 milljónum dala í fyrra, jafnvirði 22 milljarða króna. Jackson lést í júní fyrir þremur árum.

Fram kemur í frétt Reuters-fréttastofunnar að Digital Domain hafi tekist vel upp þegar fyrirtækið reisti rapparann Tupac Shakur upp frá dauðum á Cohella-tónlistarhátíðinni í apríl. Það vinnur nú með Elvis Presley Enterprises við að búa til nokkrar útgáfur af rokkkónginum en miðað verður bæði við aldur hans – og vaxtarlag. Þessar mismunandi útgáfur af Elvis Presley munu væntanlega hafa nóg að gera en væntingar eru um að hann muni koma fram bæði í sjónvarpi og á tónleikum.